Komin heim í heiðardalinn

Við erum komin heim á Klakann aftur!  Komum heim fyrir 2 dögum síðan.  Rúmir tveir mánuðir hafa hreinlega þotið áfram og sumarið er að verða búið.  Mikið fjör var núna síðustu vikurnar og því gafst lítill tími í bloggskrif.  Við fórum m.a. til Frakklands, til Tossa de Mar, í Tibibabo tívolíið í Barcelona sem staðsett er uppi á fjalli með mikilfenglegu útsýni yfir Barcelona, til Tarragona, í Water World rennibrautargarð og margt fleira.  En nú erum við komin heim og lífið farið að ganga sinn vanagang.  Hicham er að vinna, Daníel byrjar í skólanum eftir ca. viku en við Gabríel fáum að vera aðeins lengur heima.  Ég er reyndar að læra fyrir próf sem ég geymdi mér þangað til í ágúst og Gabríel byrjar svo á leikskólanum aftur í lok ágúst.

Fyrir þá sem ekki vita ennþá eigum við okkur pínulítið leyndarmál 😉  

— Við eigum von á þriðja erfingjanum í fjölskylduna —

Ég er sem sagt ólétt og komin tæpa fimm mánuði á leið – áætlaður fæðingartími er 10. janúar 🙂  Sjúddíraddírei… mikið gleði og mikil hamingja 🙂 

Advertisements

Hvert fór bloggandinn?

Sorry, hef ekki skrifað í langan tíma en það hefur bara ekki gefist tími til þess!  Nú sit ég hér inni í steikjandi hita á hádegi og rita nokkrar línur.  Foreldrar Hicham eru komnir sem og Símon og strákarnir.  Guðný kemur svo til okkar í dag.  Við höfum verið töluvert á flakki undanfarið eins og sjá má á myndum – út að borða hér og þar og ferðir til Barcelona og Tarragona.  En annars er allt gott að frétta af okkur.  Okkur líður öllum vel – strákarnir eru komnir í íþróttaklúbb sem starfræktur er á hverjum degi.  Þeir fara klukkan fjögur og eru sóttir um áttaleytið.  Þarna spila þeir fótbolta, fara í sund og á ströndina, spila tennis, hokkí, handbolta, körfubolta, fara í leiki, föndra og margt annað skemmtilegt.  Það er ekki sekúnda sem fer til spillis á þessum fjórum klukkutímum og líður þeim óskaplega vel þarna.  Það tala náttúrulega allir krakkarnir og leiðbeinendur bara spænsku svo þeir mega hafa sig alla við að fylgjast með og læra en það gengur eiginlega framar öllum vonum, þeir hafa lært heilmikið báðir tveir 🙂  Jæja, skrifa meira seinna…. þarf að þjóta 🙂 

Farin heim

Það er ekki laust við að það votti fyrir kökki í hálsi og tárum á vanga núna!  Eiður bróðir og sólargeislarnir tveir eru farin heim.  Þau áttu flug rétt fyrir klukkan sjö í morgun og eru lent heima á Íslandi núna.  Ég heyrði aðeins í Eið eftir lendingu – rigning og 10 stiga hiti heima!!  Eitthvað annað en hér 😉  Hitabylgja gengur yfir Spán núna og hefur hitinn verið að fara allt upp í 45 stig í suðurhluta Spánar og inn í miðju landsins.  Hér hefur hitinn þó haldist í kringum 35 stigin í nokkra daga!  Núna er klukkan rúmlega tvö og við erum komin inn til að standa af okkur mesta hitann 😉  Við skellum okkur svo í laugina á eftir eða þegar “veður leyfir” 😉 

Við höfum verið töluvert á flakki undanfarna daga.  Fórum í vatnsrennibrautargarð sem er blanda af safari garði og vatnsrennibrautum.  Við byrjuðum á því að keyra í gegnum svæði þar sem dýr eins og fílar, sebrahestar, antílópur, uxar, emúar og fleiri ganga laus.  Þetta vakti mikla lukku hjá krökkunum 🙂  Svo skelltum við okkur í brautirnar.  Daginn eftir eyddum við heilum degi í Barcelona þar sem við m.a. gengum um Römbluna og styrktum ýmsa götulistamenn gegn því að fá að taka myndir af þeim, fengum okkur að borða á Hard Rorck og fórum í sædýrasafn.  Um kvöldið hittum við svo pabba sem hafði verið að vinna allan daginn og borðuðum kvöldmat við höfnina.  Lentum svo í hremmingum á heimleiðinni þar sem ekki átti að leyfa okkur að taka bílinn út úr bílastæðahúsinu vegna þess hversu klukkan var orðin margt.  Við hittum fyrir mann með lyklavöld sem sat í bás og vaktaði bílastæðahúsið.  Hann sagðist “bara vinna þarna” og ekki geta gert neitt til að hjálpa okkur þar til Hicham hótaði því að hann skyldi kæra hann fyrir ábyrgðarleysi við vinnu!  Þá eins og fyrir kraftaverk opnaðist hlerinn og út komumst við með bílinn.  Einnig höfum við farið til Tarragona þar sem við fyrir tilviljun lentum á mikilli flugeldasýningu, fórum í tívolí hér í næsta bæ og svo náttúrulega þetta týpíska; strönd, sól og sæla 🙂 

Nú bíðum við bara eftir næstu heimsókn en Símon, Guðný og strákarnir eru á leiðinni til okkar í næstu viku ásamt foreldrum Hicham 🙂  Þangað til höfum við það bara rólegt og njótum þess að vera heima 😉 

Marglyttur

Þessi ferð ætlar ekki að ganga alveg slysalaust fyrir sig!  Við vorum að sóla okkur og synda um í sjónum í gær þegar Gabríel allt í einu hljóðar upp yfir sig og segist svíða mikið í annan fótinn.  Ég skoðaði hann og sá rauðar upphleyptar rendur aftan á fætinum.  Ég hljóp því með hann í sturtuna til að kæla þetta enda líklegast að marglytta hefði strokist utan í hann!  Svo var það bara að fá hjálp hjá spænska “baywatch” 😉  Klökum var haldið við fótinn og við magann þar sem annað marglyttufar kom í ljós þar.  Sviðinn hvarf sem betur fer fljótlega en Gabríel hélt sig frá sjónum það sem eftir var dags 😉  Ég býst við að þessi ferð sitji föst í minni Gabríels vegna ýmissa atburða.  Fyrst lá hann veikur á 17. júní og þurfti að taka inn hræðilegt bleikt meðal, að hans mati, til að lækka hitann.  Úff, það sem hann gretti sig yfir bragðinu!  Svo var það læknisheimsóknin vegna sársins í sundinu.  Þar næst hittir hann fyrir marglyttu í sjónum og síðast en ekki síst fann hann fyrstu lausu tönnina í gær!  Það var mikið ánægjuefni því hann hefur beðið spenntur eftir þessu í nokkra mánuði þar sem margir vina hans hafa nú þegar misst tennur.  Minn maður hefur meira að segja talað um að reyna að losa aðeins um þetta sjálfur til að flýta aðeins fyrir 😉  Nú bíður hann bara spenntur eftir því að tönnin fari alveg svo hann fái langþráð gatið milli tannanna og tannálfinn í heimsókn 🙂  Honum leist samt ekkert á ráðleggingar Eiðs frænda sem benti honum á að festa spotta í tönnina eins og í sögunni um Emil í Kattholti 😉   

Eiður, Andri og Sunna er sem sagt komin í heimsókn og líkar vel hér í kotinu hjá okkur.  Litlu stubbarnir tveir leika á alls oddi bæði í sundi og í sjónum flesta daga og finnst æðislegt að vera svona léttklædd.  Við ákváðum að skella okkur í sirkus í næsta bæ við okkur í gærkvöldi.  Hicham þurfti að fara á fund í Tarragona svo hann gat ekki keyrt okkur en þar sem þetta átti að vera síðasta sýningarkvöld sirkusins ákváðum við því bara að ganga þangað!  Gangan tók “aðeins” lengri tíma en við bjuggumst við eða heilan klukkutíma!  Sem betur fer var sirkusinn alveg þess virði.  Þarna sáum við m.a. sjóræningja Karíbahafsins, línudans, tígrisdýr, trúða, töfraatriði og alls kyns diskóatriði sem fengu börnin til að vagga sér í lendunum og hrista hausinn í takt 🙂  Einnig fengu þau að halda á slöngu og ljónsunga.  Það má svo kannski bæta því við að það fyrsta sem við sáum þegar við komum út í dag voru 50 auglýsingar frá þessum sama sirkus: “Við erum á leið í bæinn ykkar!!!” Hehe… jæja, við höfðum gott af göngunni 😉 

Það mætti halda að við hefðum ekki fengið nóg af labbinu í gær því við eyddum fjórum klukkutímum á labbinu í dag. Við skelltum okkur nefnilega á útimarkaðinn hér í bæ og gengum svo aðeins um á eftir, borðuðum á ítölskum veitingastað og leyfðum krökkunum að leika sér í köstulum.  Daníel fór á línuskautunum og fannst frábært að þurfa ekki að hafa fyrir labbinu eins og við hin 😉  Hicham var auðvitað að vinna eins og venjulega og komst því miður ekki með. 

Nú hitnar í kolunum

Nú er heldur betur farið að hitna hér!  Hitastigið er um og yfir þrjátíu alla daga og himinn vel heiður flesta daga.  Sem betur fer erum við staðsett við breiða strandlengju þannig að við njótum alltaf hafgolunnar 🙂  Hicham og Daníel komu heim frá Marokkó á sunnudagskvöldið eftir mjög svo notalega dvöl þar.  M.a. var haldið upp á afmæli Daníels í Marokkó svo nú segir hann stoltur frá því að hann hafi haldið upp á afmælið sitt þetta árið í þremur löndum:  á Íslandi, á Spáni og í Marokkó!!  Stefnan er nefnilega tekin á að gera eitthvað skemmtilegt hér á Spáni á morgun þar sem nú loks er komið að eiginlegum afmælisdegi guttans.  30. júní er á morgun og Daníel verður 11 ára 🙂  Við fáum góða gesti í heimsókn því Eiður bróðir og krúttin hans tvö eru væntanleg til okkar í nótt.  Hér ætla þau svo að vera og njóta sólarinnar með okkur í tæpar tvær vikur 🙂 

Viðburðaríkur dagur

Við Gabríel eigum nokkuð viðburðaríka helgi að baki!  Á föstudagskvöldinu ætluðum við að keyra til Tarragona og taka þátt í hátíðahöldunum þar.  En þegar við sáum danspall settan upp hér beint fyrir utan garðinn okkar tókum við þá ákvörðun að vera bara heima og njóta kvöldsins hér í bænum.  Það var vægast sagt mikið stuð og mikið sprengt upp af flugeldum, aðallega Kínverjum og sprengjum sem valda miklum hávaða!  Strandgatan breiða með pálmatrjánum var yfirfull af fólki, þá sérstaklega börnum með fulla poka af sprengjum og gleðibros á vör 🙂  Við Gabríel löbbuðum niður í bæ og tókum þátt í gleðinni.  Það lá nú reyndar við að við þyrftum að skera loftið á leiðinni svo við kæmust eitthvað áfram vegna reyksins sem lagði frá sprengjunum.  Mikil stilla var í lofti og því hvarf reykurinn ekki svo auðveldlega.  Við fylgdumst svo með brennum á ströndinni og heilu fjölskyldunum rogast með grillin sín niður í sandinn, stóla, borðbúnað og langborð svo allir gætu nú fengið sæti; afar, ömmur, frænkur, frændur, vinir og kunningjar 🙂  Svo var grillað!!  Grillaðar sardínur á degi sem þessum er jafn heilagt fyrir Spánverjum og hamborgarhryggur eða rjúpur eru fyrir okkur á aðfangadag.  Þeim er svo skolað niður með góðu rauðvíni og nýbökuðu brauði.  Í eftirrétt er svo hin týpíska San Juan terta (La coca de San Juan).  Daginn fyrir hátíðina mátti sjá annan hvern Spánverja á rölti út úr bakaríi með marga kassa af tertum undir hendinni 😉  Við Gabríel létum það eftir okkur að prófa kökuna á sölubás úti á götu og bjuggumst við þessu líka himneska bragði um leið og við bitum í en… kakan fór beint í ruslið!  Ekki okkar tebolli enda bara vön íslenskum hnallþórum.  Segið svo að maður sé ekki vanafastur 😉  Sardínurnar lögðum við ekki í 😉  Hef einu sinni prófað þær og þar sem það tók mig lengri tíma að tína öll pínulitlu beinin úr þeim en að borða þær ákvað ég að einu sinni væri yfirdrifið nóg!   Þegar ballið byrjaði hér fyrir utan dönsuðum við eilítið og drógum svo úr sér gengnar lappirnar heim og í bólið. 

En dagurinn sem á eftir kom var sá viðburðarríki.  Þá fór Gabríel í fyrsta sinn til læknis á Spáni!  Við vorum úti í sundi seinnipartinn þegar Gabríel allt í einu gefur frá sér gríðarlegt sársaukavein!  Hann hafði fest puttann í stiganum á sundlauginni sem varð til þess að stórt opið sár myndaðist á innanverðum þumalfingri.  Ég kippti honum upp úr lauginni og hljóp með hann inn.  Blóðið lak niður handlegginn og skildi eftir rauða slóð á stéttinni.  Þegar inn var komið setti ég handklæði yfir puttann og hélt því þar þangað til blóðið hætti að leka.  Það mátti lesa mikla skelfingu út úr andliti litla mannsins og við og við rak hann upp angistarvein.  Blóðið lak í gegn um handklæðið sem varð nú ekki til þess að minnka skelfinguna.  Eftir svolítinn tíma fékk ég að setja plástur á sárið með því skilyrði að handklæðið yrði sett aftur yfir sárið strax á eftir.  Gráturinn og tilfinningarnar báru hann svo ofurliði þar sem hann sofnaði á sófanum í sundskýlunni með handklæðið utan um puttann 😉  Þegar hann vaknaði bauð ég honum að fara á McDonalds og sársaukinn hvarf á augnabliki 😉  Nú, við fórum þangað og fengum okkur að borða.  Á heimleiðinni vildi svo illa til að sárið opnaðist aftur og byrjaði að blæða aftur.  Þá ákvað ég að betra væri að láta lækni búa um sárið þar sem einn lítill plástur virtist ekki hafa mikið að segja.  Nú voru góð ráð dýr.  Klukkan var að ganga ellefu um kvöld og ég varð að finna opna læknastofu á einum stærsta frídegi Spánverja og rata þangað!  Ég hringdi í sérstakt neyðarnúmer slysa og það ótrúlega gerðist… það var víst opin læknastofa í næsta nágrenni við mig og það á þessum tíma!  Þá var bara að keyra af stað.  Ég vissi að stofan var hér í um 5 km fjarlægð en hvar vissi ég ekki nákvæmlega.  Mér datt nú í hug að fara á lögreglustöðina hér í bæ og fá þá til að lýsa leiðinni fyrir mér en eins merkilegt og það nú er þá var lögreglustöðin lokuð og engar leiðbeiningar þar að fá!! Svo við Gabríel krúsuðum svolítið um bæinn hér fyrir ofan okkur og spurðumst fyrir þangað til við duttum niður á stofuna í kringum miðnætti í myrkrinu á laugardagskvöldi 🙂  Inn fórum við og komumst fljótlega að.  Gabríel var nú ekki á því að láta einhverja konu kíkja á sárið svo hann hélt fast að sér hendinni og grét svolítið. Það þurfti að beita bellibrögðum til að fá hann til að rétta fram puttann – ís á eftir ef hann yrði duglegur og loforð um að þetta yrði ekki vont!  Verð að viðurkenna að ég gat ekki staðið við sársaukaleysið því sárið var sótthreinsað með joði sem olli miklum sársauka og var minn maður EKKI ánægður með það!!  Svo var búið um sárið og við snerum heim á leið.  Ísinn var borðaður með bestu lyst og hann var kominn í rúmið um hálftvöleytið.  Minn bara þokkalega ánægður með að fá að vera fótum svona lengi og fá ís eftir miðnætti 😉 

Sól skín í heiði

“Afi minn, nú kem ég til þín, með hrútspunginn góða og krassandi vín”

Gabríel dansaði hér um húsið fyrr í dag og sönglaði þetta um leið 🙂  Verð að viðurkenna að ég hef aldrei heyrt þetta áður en gaman var að hlusta á hann 🙂  Sólin lét loksins sjá sig seinnipartinn í dag.  Við tókum auðvitað strikið á ströndina og sleiktum sólina fram undir kvöldmat.  Skelltum okkur svo í sund og skoluðum af okkur sandinn.  Annars erum við Gabríel bara ein í kotinu núna því Hicham og Daníel fóru til Marokkó í fyrradag.  Við sækjum þá á flugvöllinn á sunnudagskvöldið.  Við mægðin gerum okkur glaðan dag á meðan – ætlum t.d. til Tarragona á morgun þar sem mikil hátíð gengur í garð hér á Spáni annað kvöld og stendur fram yfir laugardag: La fiesta de San Juan.  Þetta er með stærri hátíðum ársins hér.  Skotið verður upp flugeldum og dansað fram á nótt!  Mikið líf og fjör 🙂 

GOOOOOOOOL !!!!!!!!!

MAAAAAAARRRKKK !!!!!

Seinni leikur Spánverja á Heimsmeistaramótinu í fótbolta var að enda og hér er allt að verða vitlaust 🙂  Spánverjar unnu Túnverja með þremur mörkum gegn einu!  Annar sigurinn þeirra í röð og hér ætlar bókstaflega allt um koll að keyra.  Fólk hér telur heimsmeistaratitilinn næstum því í höfn!  Hér eru næstum því allir leikir sýndir beint.  Ég verð að viðurkenna það að beinar fótboltaútsendingar í bland við nýtilkominn fótboltaáhuga Hichams er ekki alltaf góð blanda í mínum huga 😦  Grrr….

En jæja, allt gott af okkur að frétta!  Gabríel var reyndar veikur á þjóðhátíðardaginn svo við gerðum mest lítið þann dag.  Hann lá heima greyið með hita og svaf lungan úr deginum 😦  Daginn áður fórum við til Tarragona því Hicham þurfti að ganga frá málum þar vegna vinnunnar.  Við fengum okkur góðan göngutúr þar í borg, m.a. um fornar rústir sem vöktu mikinn áhuga strákanna.  Við tókum að sjálfsögðu myndir á nýju myndavélina og eru þær komnar inn á myndasíðuna 🙂 

Annars hefur veðrið svo sem ekki verið til fyrirmyndar hér að undanförnu.  Hér lýstu eldingar upp himinn í fyrradag og þrumur drundu í kjölfarið.  Það hefur sem sagt ekki alltaf viðrað vel til strandferða né sundferða en við vonum að það fari nú að breytast!  Það er ekki alltaf hægt að treysta á sól upp á hvern dag í Katalóníu eins og reyndin er sunnar á Spáni. 

Fýkur yfir hæðir

Við lögðum ekki í það að fara á ströndina í dag vegna sandroks mikils sem hér geisar núna.  Ég sá fyrir mér að við þyrftum að halda okkur fast í bekkina eða bora okkur föst í sandinn svo við myndum bara ekki fjúka langt á haf út á handklæðunum eins og Aladdin á töfrateppinu!  Já, eða eiga á hættu að flækjast fyrir fótum skælbrosandi flugáhugamanna sem fjúka hér fram og tilbaka um ströndina með flugdreka, svifdreka og fallhlífar um leið og vindur reisir sig!  Þá er betra að flatmaga við sundlaugina með tvö spænsk Hello blöð í fanginu; annað þeirra uppfullt af myndum af nýfæddu barni þeirra Brad Pitt og Angelina Jolie og hitt með viðtali við Jennifer Aniston með fyrirsögninni: "Ég er ekki lengur sár"!! Það mætti halda að maður sé farinn að líkjast hinum týpíska Spánverja sem bókstaflega þrífst á slúðri um fræga fólkið 😉 

Við fórum til Barcelona í gær!  Þetta var eiginlega hálfgerð innkaupaferð því ætlunin var að kaupa loksins myndavél svo ég geti nú farið að taka myndir.  Ég verð að viðurkenna að ég er ómöguleg án þess að hafa myndavél við höndina!  Hicham þurfti reyndar að hitta viðskiptavin í Mataró fyrst en svo lá leiðin til Barcelona.  Að ósk Gabríels byrjuðum við á því að fá okkur hádegismat á tapas staðnum sem við fórum á um daginn.  Gvöð… dásamlegur staður 🙂  Svo fundum við þessa líka fínu Canon myndavél svo nú get ég farið að dæla myndum inn á myndasíðuna okkar (sjá link hér til vinstri) 🙂  Þar sem þetta var nú svona einhvers konar innkaupaferð stoppuðum við í IKEA á leiðinni heim og keyptum hitt og þetta sem okkur vantaði hér heima. 

Hvað gerðum við svo í fyrradag?  Held ég hljóti að hafa týnt nokkrum heilasellum við slúðurblaðalesturinn!  Já, við fórum á útimarkaðinn sem er alltaf haldinn hér í bæ á þriðjudögum.  Þar úir og grúir af öllu sem nöfnum tjáir að nefna.  Svo er þarna ekta kjöt- og grænmetismarkaður líka þar sem við keyptum okkur m.a. kjöt til að grilla!  En grillleitin stendur reyndar ennþá yfir 😉  Ha, á maður að kaupa grillið á undan kjötinu?  Ertu viss? 😉

Í Fenals

Við fórum til Fenals í gær í heimsókn til José og fjölskyldu.  Fenals er bær í um 80 km fjarlægð frá Barcelona – staðsettur rétt við Lloret de Mar og Tossa de Mar fyrir þau ykkar sem þekkið ykkur þar 😉  Við vorum komin til þeirra um hádegið og skelltum okkur þá beint á ströndina.  Ströndin var lítil falleg vík sem minnti okkur örlítið á strendurnar á Mallorca.  Á ströndinni var auðvitað fullt af fólki og vorum við kynnt fyrir hinum og þessum sem José og co. þekktu og þ.a.l. kysst í bak og fyrir en við heilsuðum hverjum og einum með kossi á sitt hvora kinnina að hætti Spánverja.  Gabríel fannst þetta endalausa kyssustand eiginlega hálfskrýtið og þá fannst honum sérstaklega furðulegt að svona margir karlar væru að kyssa mömmu hans! 

Eftir ströndina fórum við svo heim til José og fengum þar dýrindis hádegisverð sem Lola, konan hans, snaraði fram á svipstundu:  Sjávarréttasalat, paella, margar tegundir af heimatilbúnum croquettas, empanadas. patatas fritas og ólífur.  Svo var eftirrétturinn ekki heldur af verri endanum:  súkkulaði, ís og kaka og kílóin hrannast utan á okkur! 

Eftir mat léku krakkarnir sér saman í pílukasti, körfubolta og öðrum leikjum úti á stórri veröndinni og skelltu sér svo í sund.  Gaman var að sjá hversu auðvelt er fyrir krakka að leika sér saman þrátt fyrir tungumálaörðugleika 🙂  Við vorum svo komin heim um ellefu-leytið eftir skemmtilegan dag í "sveitinni" 😉 

« Older entries